Fréttatilkynning – Samfélagssjóður KKÞ

Kaupfélag Kjalarnesþings var stofnað um miðja síðustu öld og starfaði fyrstu árin að Fitjakoti á Kjalarnesi en lengst af eða frá 1956 í Mosfellssveit.

Kaupfélagið sjálft hætti verslunarrekstri um 1997 og leigði verslunarhúsnæði sitt út eftir það m.a. til Krónunnar og fleiri aðila.

Á aðalfundi Kaupfélagsins í júlí 2016 var tekin ákvörðun um að leggja félagið niður og var sú ákvörðun staðfest á félagsfundi í ágúst 2016. Kjörin var slitastjórn er fékk það verkefni að annast um slit félagsins, sölu eigna þess og uppgjör við lánadrottna og skyldi það fé sem afgangs yrði lagt í sjóð og fénu ráðstafað til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði kaupfélagsins.

 

Skilanefnd KKÞ boðaði síðan til félagsfundar miðvikudaginn 27. desember 2017. Á fundinum var m.a. samþykkt stofnun sjálfseignarstofnunar sem ber heitið Samfélagssjóður KKÞ og var stofnfé sjóðsins ákveðið kr. 50 milljónir. Vonir standa til að þegar skilanefnd hefur lokið störfum muni koma viðbótar stofnfé til stjóðsins.

Félagsfundur kaus eftirtalda sem aðal- og varamenn í stjórn sjóðsins: Birgi D Sveinsson, Stefán Ómar Jónsson og Steindór Hálfdánarson sem aðalmenn og Sigríði Halldórsdóttur og Svanlaugu Aðalsteinsdóttur sem varamenn.

Nýkjörin stjórn Samfélagssjóðs KKÞ hefur haldið sinn fyrsta fund þar sem hún m.a. skipti með sér verkum þannig að formaður er Stefán Ómar Jónsson, ritari er Birgir D Sveinsson og meðstjórnandi er Steindór Hálfdánarson. Aðal- og varamenn munu ávallt allir sitja stjórnarfundi.

 

Verkefni stjórnar er að úthluta fjármunum stofnunarinnar til æskulýðs- og menningarmála, góðgerðar- og líknarmála og annarrar starfsemi til almenningsheilla á fyrrum félagssvæði Kaupfélags Kjalarnesþings sem nær yfir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjósarhrepp.

Gert er ráð fyrir að verkefnið taki eftir atvikum 2-3 ár. Þegar úthlutun úr Samfélagssjóði KKÞ verður lokið verður sjálfseignarstofnunin lögð niður í samræmi við lög nr. 19/1988 um sjóði sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Á næstu misserum verður auglýst um fyrstu úthlutun og þá kynnt nánar um fyrirkomulag umsókna.

 

Nánari upplýsingar veitir formaður Stefán Ómar Jónsson í síma 892 6801

soj@kaupo.is